Vilja safn um Flóaáveituna

Til stendur að leggja uppbyggðan veg að flóðgáttinni á Flóaáveitunni sem er við Hvítá austan Brúnastaða.

Vegagerðin hefur þegar ákveðið að styðja við verkefnið með tveggja og hálfrar milljón króna framlagi. Fyrstu áætlanir benda til þess að kostnaður vegna framkvæmdanna sé um sjö milljónir króna. Mögulegt er þó að þeim kostnaði verði náð niður í útboði og með sjálfboðavinnu.

Flóðgáttin var tekin í notkun í maí 1927 og þykir mikið mannvirki líkt og Flóaáveitan öll. Var hún hönnuð af Jóni Þorlákssyni, verkfræðingi og síðar forsætisráðherra.

Áhugi er meðal heimamanna að auka hróður Flóaáveitunnar og auðvelda ferðamönnum aðgang að mannvirkjum. Þá er fyrirhugað að koma upp vísi að safni til varðveislu þeirra verðmæta sem sagan geymir um þá merku og umfangsmiklu framkvæmd sem Flóaáveitan þótti á sínum tíma.