Vilja reisa hótel á Óseyrartanga

Fyrirtækið Makron í Garðabæ vill reisa 64 herbergja hótel á nýrri lóð á Óseyrartanga í Ölfusi, skammt frá veitingastaðnum Hafinu bláa.

Hafa forsvarsmenn fyrirtækisins kynnt fyrirætlanir sínar fyrir sveitarstjórn Ölfuss, sem telur hugmyndina falla vel að stefnu sveitarfélagsins í ferðaþjónustumálum.

Verði af smíði hótelsins er um að ræða lágreista hótelbyggingu með fyrrnefndum 64 herbergjum og veitingaraðstöðu á um tveggja hektara lóð. Aðkoma að hótelinu er frá Eyrarbakkavegi, en ekki er ætlunin að skerða aðgang almennings að ströndinni þar fyrir neðan.

Eftir því sem heimildir Sunnlenska segja er ætlunin að hótelið verði í Icelandair hótelkeðjunni.

Fyrri greinLeitað að ökumanni og vitnum
Næsta greinHSK sækir um ULM og Landsmót 50+