Vilja reisa einangrunarstöð á Stóra-Ármóti

Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands hefur boðið Landssambandi kúabænda og Bændasamtökum Íslands að einangrunarstöð verði byggð á Stóra-Ármóti í Flóahreppi.

„Við viljum leggja okkar af mörkum til að þjónusta kúabændur, enda erum við að vinna fyrir þá. Stöðin yrði byggð næsta sumar og tekin í notkun næsta haust ef allt gengur upp,“ segir Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, í samtali við Sunnlenska.

Sveinn leggur áherslu á að málið sé enn á hugmyndastigi, engir samningar hafi verið undirritaðir.

Með breytingu á lögum um innflutning dýra sem samþykkt var á Alþingi síðasta sumar var heimilaður innflutningur á sæði og fósturvísum holdanautgripa í einangrunarstöð. Jafnframt verður heimilt að flytja gripi sem vaxið hafa upp af innfluttu erfðaefni úr einangrunarstöð, þegar þeir hafa náð níu mánaða aldri. Reglugerðin gerir ráð fyrir að einungis verði heimilt að ytja inn erfðaefni frá Noregi.

Lausleg kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að bygging og rekstur nýrrar einangrunarstöðvar geti kostað hátt í tvö hundruð milljónir króna á fyrstu fjórum rekstrarárunum. Áætlað er að hver fósturvísir kosti um 180 þúsund krónur á meðan sæðisskammturinn kostar tæplega 4.000 krónur.

Fyrri greinÓskar sæmdur silfurmerki KSÍ
Næsta greinDagbók lögreglu: Stolið í Hveragerði – fannst í Reykjavík