Vilja reisa þjóðveldisbæ á Þingvöllum

Fjórir ungir sagnfræðingar stefna að því að bjóða upp á menningartengda ferðaþjónustu í stórum þjóðveldisskála úr torfi og grjóti innan Þingvallasvæðisins.

Þau hafa kynnt hugmynd sína fyrir ráðamönnum í þjóðgarðinum og bíða nú svars hvort leyfi fáist til byggingar innan svæðisins en fjórmenningarnir leggja mikla áherslu á að aðstaðan tengist þingstaðnum á Þingvöllum.

Þau Andri Steinn Snæbjörnsson, Kristbjörn Helgi Björnsson, Sigurlaugur Ingólfsson og Svava Lóa Stefánsdóttir hafa unnið ítarlega áætlun um byggingu 300 fermetra skála sem tekur 20 manns í gistingu. Að auki verða útihús, fjós og smiðja, ásamt kirkju. Enn fremur verða átta þingbúðir sem taka saman 48 manns í gistingu og að auki verður hefðbundin gistiaðstaða með 40 gistirýmum.

Kristbjörn sagði í samtali við Sunnlenska að gert sé ráð fyrir lifandi sýningum frá víkingatímanum á svæðini og áætlar hann að allt að 30 störf skapist með þessu á ársgrundvelli. Auk þess verður boðið upp á handverksmarkað og vonast þau til þess að þannig skapist stemming svipuð þeirri sem tíðkaðist á fyrstu árum Íslandsbyggðar.

Fjórmenningarnir fengu styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að vinna viðskiptaáætlun og gert er ráð fyrir að heildarstofnkostnaður nemi nærri 160 milljónum. Áætlað er að endanlegri uppbyggingu verði lokið á átta árum og mun Helgi Sigurðsson, grjót- og torfhleðslumeistari, starfa við uppbyggingu aðstöðunnar.

Fyrri grein„Förum ekki fram úr okkur”
Næsta greinMargrét Ingibjörg 102 ára í dag