Vilja reisa þjóðveldisbæ við Laugarvatn

„Við höfum hug á að reisa þjóðveldisbæ með útihúsum við Laugarvatn þar sem fólki gefst kostur á að sjá og upplifa umhverfi frá 11. til 13. öld.“

Þetta segir Sigurlaugur Ingólfsson, sagnfræðingur og safnkennari. Sigurlaugur er einn eigenda Stórsögu ehf. sem sótt hefur um aðstöðu fyrir starfsemi sína við Laugarvatn.

„Við viljum taka sýningu á lífinu á þjóðveldis öld skrefi lengra en gert hefur verið hingað til á landinu og bjóða upp á gistingu í torfbæ,“ segir Sigurlaugur.

Stórsaga sótti upphaflega um leyfi til uppbyggingar þjóðveldisbæjar á Þingvöllum en Sigurlaugur segir að eigendur Stórsögu hafi orðið fyrir vonbrigðum með hve umsóknarferlið hefur tekið langan tíma. Því var sú ákvörðun tekin að færa sig til Laugarvatns þar sem þau hafi fengið góðar undirtektir.

Sigurlaugur og félagar hafar átt í viðræðum við ýmsa aðila til að fjármagna verkefnið. „Margir eru jákvæðir og við höfum fengið til liðs við okkar öflugan fjárfesti í ferðamannaiðnaðinum,“ segir Sigurlaugur.

„Hins vegar sé ég fyrir að uppbygging geti farið hægar af stað ef upphafleg fjármögnunar markmið nást ekki. Torfbærinn er þungamiðjan en önnur útihús svo sem fjós og guðshús geta beðið aðeins.“