Vilja ráða Kristófer framkvæmdastjóra

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að lækka starfshlutfall oddvita og að ræða við Kristófer Arnfjörð Tómasson viðskiptafræðing, um að taka að sér framkvæmdastjórastöðu hjá sveitarfélaginu.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti, óskaði sjálfur eftir lægra starfshlutfalli á fundi sveitarstjórnar í vikunni og lagði ennfremur til að fenginn yrði maður til að hafa yfirumsjón með daglegum rekstri sveitarfélagsins.

Í greinargerð sem Gunnar Örn lagði fram á sveitarstjórnarfundi í vikunni kemur fram að mikill erill fylgi því að vera í fullu starfi sem oddviti og að minni tími en hann hefði kosið gæfist til að vinna á skrifstofunni. Þá standi hann í eigin rekstri sem hafi aukist að umsvifum undanfarið.

„Svo að þessir hlutir fari ekki að rekast á tel ég eðlilegt að ég minnki starfshlutfall mitt á skrifstofunni, enda tel ég að það starf sem ég hef gegnt sem oddviti í fullu starfi sé meira en fullt starf eigi að sinna öllu eins og þörf er á,“ bókar Gunnar á sveitarstjórnarfundi í vikunni.

Fulltrúi N-listans í sveitarstjórn, Oddur Guðni Bjarnason, fagnar því sem hann segir stefnubreytingu hjá meirihlutanum að „nú skuli eiga að auglýsa og ráða sveitarstjóra (framkvæmdarstjóra) og lækka starfshlutfall oddvita. Það gefur auga leið að sinna 100% starfi sem sveitarstjóri er ekki mikill tími fyrir eigin rekstur.“

Fyrri greinIngólfur semur – Dani til reynslu
Næsta greinSelfoss náði í stig í Breiðholtinu