Vilja Ölfusingar sameinast Hveragerði, Árborg eða Grindavík?

Dagana 17. til 26. mars verður haldin rafræn íbúakosning í Sveitarfélaginu Ölfusi þar sem kannaður verður vilji íbúanna til sameiningar við önnur sveitarfélög.

Fyrirkomulag kosninganna var rætt á fundi bæjarstjórnar í gær og samþykktar þær spurningar sem lagðar verða fyrir íbúana. Spurt verður um vilja til sameiningar og mögulega sameiningarkosti auk þess sem íbúarnir verða spurðir um heppilegustu tímasetninguna fyrir bæjarhátíðina Hafnardaga.

Spurning 1
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss ræði við annað sveitarfélag eða sveitarfélög um sameiningu?
-Hlynnt(ur) viðræðum
-Andvíg(ur) viðræðum

Spurning 2
Ef meirihluti íbúa er hlynntur viðræðum, við hvaða sveitarfélag ætti Ölfus helst að ræða? (Sé fyllt í valkosti má velja eitt eða fleiri sveitarfélög)
-Árborg
-Hveragerði
-Grindavík
-Annað sveitarfélag

Spurning 3
Hvaða tímasetningu telur þú heppilegasta/besta fyrir Hafnardaga?
-Sjómannadagshelgi
-Júní eftir sjómannadag
-Júlí
-Verslunarmannahelgi
-Ágúst eftir verslunarmannahelgi
-September til maí

Bæjarstjórn fól kjörstjórn að ganga endanlega frá kjörseðli í samræmi við lög og reglur. Rafræna íbúakosningin hefur verið kynnt lögum samkvæmt með opinberum hætti á heimasíðu sveitarfélagsins og mun verða kynnt með ítarlegri hætti á næstu dögum.

Í bókun bæjarstjórnar segir að til að koma í veg fyrir misskilning varðandi spurningu 1 þá eru íbúar ekki að kjósa um sameiningu sveitarfélaga heldur er bæjarstjórn að leita umboðs íbúa til mögulegra sameiningarviðræðna við önnur sveitarfélög. Ef bæjarstjórn fær umboð til slíkra viðræðna gætu þær viðræður leitt til kosninga um sameiningu Sveitarfélagsins Ölfuss við annað eða önnur sveitarfélög þar sem fram færu ítarlegar kynningar á áhrifum slíkrar sameiningar, það sem í daglegu tali er nefnt ”kostir og gallar“.

Bæjarstjórn hvetur íbúa sveitarfélagsins til þátttöku.

Fyrri greinSækja skíðamenn á Vatnajökul
Næsta greinMótmæla niðurfellingu tveggja vega