Vilja loka inn í Reykjadal vegna aurbleytu

Aurbleyta á gönguleiðinni í Reykjadal. Mynd úr safni.

Bæjaryfirvöld í Hveragerði hafa haft samband við Umhverfisstofnun og lögregluna á Suðurlandi og óskað eftir að gönguleiðinni í Reykjadal verði lokað tímabundið, vegna mikillar rigningar og aurburðar á svæðinu.

Í tilkynningu frá Geir Sveinssyni, bæjarstjóra, segir að mikil úrkoma á svæðinu síðustu daga hafi valdið aurflæði, sem gerir gönguleiðina hættulega göngufólki. Lokun stígsins sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir slys og tryggja öryggi allra gesta.

„Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem væntanleg lokun kann að valda og biðjum um samvinnu við að virða lokunina,“ segir í tilkynningu Geirs.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd getur Umhverfisstofnun lokað viðkvæmum svæðum tímabundið í allt að tvær vikur eftir samráð við viðkomandi sveitarfélög og skal lokunin auglýst áður en að henni kemur.

Fyrri greinÞrjú sunnlensk lið í 32-liða úrslitin
Næsta greinAð búa í góðu samfélagi og taka þátt