Vilja koma böndum á gámanotkun

Skipulags- og byggingarnefnd Mýrdalshrepps hyggst taka á aukinni notkun bráðabirgðahúsnæðis sem oftar en ekki er ekki borgað af.

Víða í sveitarfélaginu eru gámar notaðir sem geymslur og eins eru íbúðagámar notaðir bæði sem veitinga- og gististaðir. Munu hátt í sextíu gámaeiningar vera notaðar í þeim tilgangi í Mýrdalnum. Það er þróun sem stjórnendur sveitarfélagsins hafa áhyggjur af.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til að reynt verði að takmarka notkun þessara gáma og að eigendum verði gert skylt að sækja formlega um leyfi fyrir slíkum gámum gegn stöðuleyfisgjaldi.

Að sögn Ásgeirs Magnússonar, sveitarstjóra, er ljóst að notkun þessa bráðabirgðahúsnæðis hefur aukist verulega og segir hann litla sanngirni í því að þeir sem notuðust við gáma þyrftu ekki að borga af þeim gjöld á meðan aðrir borga fullt gjald.