Vilja kirkjumiðstöð á Selfossi

Aðalsafnaðarfundur Gaulverjabæjarsóknar, sem haldinn var á dögunum, hvetur til þess að komið verði á fót kirkjumiðstöð á Selfossi, sem nær yfir lágsveitir Árnesþings.

Á fundinum var rædd tillaga um færslu Gaulverjabæjarsóknar frá Eyrarbakkaprestakalli í Selfossprestakall.

Ágætar umræður urðu um tillöguna og var ákveðið að fresta afgreiðslu hennar, þar til skýrist betur með þær sameiningar prestakalla sem lagðar hafa verið til og eru í umræðunni. Fundinum hugnast ekki sú tillaga sem er á borðum varðandi sameiningu Eyrarbakka- og Þorlákshafnarprestakalla og ályktaði að hvetja til þess að komið verði á fót kirkjumiðstöð á Selfossi, sem nær yfir lágsveitir Árnesþings.

Tíu manns mættu til fundar og telst það vera góð mæting og vel fundarfært. Már Ólafsson í Dalbæ, sem hefur verið í sóknarnefnd í um 20 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu, í hans stað var kosinn Kristján Larsen á Dverghamri og mun hann sjá um kirkjugarðinn.
Auk hans eru í sóknarnefnd þær Margrét Jónsdóttir á Syðra-Velli formaður og gjaldkeri og Margrét Stefánsdóttir í Gerðum kirkjuhaldari. Varamenn eru Guðrún Elísa Gunnarsdóttir í Hólshúsum, Anný Ingimarsdóttir í Vorsabæjarhjáleigu og Helgi Friðrik Halldórsson í Laufhóli.
Greint er frá þessu í Áveitunni.
Fyrri greinLandgræðsluskóli SÞ í heimsókn í Gunnarsholti
Næsta greinSaumur besti lambafaðirinn