Vilja kenna vindorkulundinn við Vaðöldu

Vaðölduver eða Vaðölduvirkjun. Mynd/Landsvirkjun

Sveitarstjórn Rangárþings ytra leggur til að fyrirhugaður vindorkulundur Landsvirkjunar, Búrfellslundur, verði hér eftir kallaður Vaðölduver eða Vaðölduvirkjun, kennd við Vaðöldu sem er á svæðinu.

Breytt landnotkun í aðalskipulagi vegna áforma um vindorkulundinn var samþykkt samhljóða á síðasta fundi sveitarstjórnar og einnig var samþykkt að ráðast í viðhorfskönnun meðal íbúa sveitarfélagsins til fyrirhugaðra framkvæmda. Byggðaráð mun fjalla nánar um útfærslu könnunarinnar og sveitarstjóra og oddvita var falið að ræða við Landsvirkjun um nafnið á framkvæmdinni.

Hér er verið að úthluta gæðum
„Þetta er risavaxið og spennandi verkefni sem er framundan í sveitarfélaginu. Það hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið hve þörfin er orðin brýn fyrir aukna græna orku, um það efast engin. Ráðherra orkumála hefur farið mikinn og lagt hart að sveitarfélögunum að draga ekki lappirnir í leyfisveitingum og öðru er snýr að skipulagsmálum,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings eystra.

„Hér er verið að úthluta gæðum en það bólar ekkert á skýrum lagaramma um ávinning orkusveitarfélaganna vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu frá stjórnvöldum, það verður að fara saman hljóð og mynd,“ segir Eggert Valur og bætir við að það sé óskiljanlegt hvað hlutirnir ganga hægt hjá ríkinu. „Það virkar ekki hvetjandi fyrir orkusveitarfélögin.“

Fyrri greinNóg um að vera á bókasafninu á Selfossi
Næsta grein40 keppendur á bocciamóti HSK