Vilja kaupa veiðirétt við Sogið

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur hafnað tilboði frá Búgarði ehf. í veiðiréttindi og veiðihús við Sogið í landi Ásgarðs.

Sveitarstjórnin samþykkti að fela lögmanni sveitarfélagsins að skoða möguleika á sölu á almennum markaði.

Að sögn Gunnars Þorgeirssonar, oddvita hreppsins, er hér um að ræða verðmætan veiðirétt í einni þekktustu veiðiá landsins. Því þótti forráðamönnum hreppsins rétt að fara nánar yfir málið. Hann vildi hins vegar ekki segja til um hvort frekari tilboða yrði leitað í veiðiréttinn. Hann sagði að það hefði komið ýmsum í sveitastjórn á óvart að möguleg sala á veiðiréttinum hefði verið rædd við síðustu sveitastjórn. Hann tók fram að engin forkaupsréttarákvæði væru í gildi.

Grímsnes- og Grafningshreppur og Búgarður eiga veiðiréttinn sameiginlega, þannig að hreppurinn á 2/3 og Búgarður 1/3. Veiðin hefur verið leigð til Stangveiðifélags Reykjavíkur undanfarin ár og hefur félagið lýst yfir áhuga sínum á að halda áfram að leigja ána.

Ólafur Auðunsson athafnamaður keypti Búgarð ehf. af Valtý Pálssyni og öðrum meðeigendum sínum í vor. Að sögn Gunnars hafa hins vegar starfsmenn fasteignaþróunarfélagsins Klasa komið fram fyrir hönd Búgarðs í þessum viðræðum.

Fyrri greinInnbrot í Hveragerði
Næsta greinKirkjukórinn og Halla Dröfn