Vilja hleypa Skaftá aftur út í Eldhraun

,,Íbúar á þessu svæði hafa verulegar áhyggjur af þessu vatnsleysi og ljóst er að það skiptir milljónum króna á ári sem menn tapa á þessu.”

Þetta segir Þorsteinn M. Kristinsson, sveitarstjórnarmaður í Skaftárhreppi, en hann hefur reglulega vakið athygli á vatnsminnkun í lækjum og lindum í Landbroti og Meðallandi.

Í tengslum við nýtt aðalskipulag hafa Skaftárhreppur, umhverfisráðuneytið og Vegagerðin gert með sér samkomulag um stýrihóp vegna aðgerða gegn gróður- og landeyðingu á áhrifasvæði Skaftár. Markmið stýrihópsins er m.a. að stuðla að rannsóknum á áhrifum einstakra vatnsstýringarferla og stuðla þar með að mögulegum lausnum til þess að auka stöðugleika í rennsli lækja og linda undan Eldhrauni á Út-Síðu.

Íbúar svæðisins hafa í langan tíma bent á vandamálið, stutt með veigamiklum rökum, m.a. frá Veiðimálastofnun. Það er því eindregin ósk að umhverfisyfirvöld og Skaftárhreppur beiti sér strax fyrir aðgerðum til verndar lindarvatns og lífríkis í Landbroti og Meðallandi. „Vatnsminnkun í lækjum og lindum í Landbroti og Meðallandi,“ segir í bókuninni.

Að sögn Þorsteins er um að kenna breytingu á rennsli Skaftár sem áður rann út í Eldhraun. Þessi breyting átti sér stað fyrir 60 árum og taldi hann að um 16 rúmmetra rennsli hefði verið tekið í burtu. Vatnið rynni nú framhjá Kirkjubæjarklaustri og ylli vandræðum vegna aurburðar. ,,Ég tel að það þurfi ekki miklar framkvæmdir til að breyta þessu og láta vatnið renna sína gömlu leið,” sagði Þorsteinn.

Fyrri greinMálþing um eflingu búskapar í Skaftárhreppi
Næsta greinSamruni ætti að flýta fyrir framkvæmdum