Vilja hjúkrunarheimili í Laugarási

Kvenfélag Biskupstungna samþykkti á síðasta fundi sínum ályktun þar sem skorað er á sveitarstjórn Bláskógabyggðar að beita sér fyrir byggingu hjúkrunarheimilis í Laugarási hið fyrsta en þar er heilsugæslan fyrir héraðið staðsett.

Eru öll kvenfélögin í uppsveitum Árnessýslu í nánu samstarfi um að skora á sínar sveitarstjórnir að beita sér fyrir þessu máli þar sem skortur á hjúkrunarheimili í uppsveitunum hefur haft það í för með sér að aldraðir íbúar uppsveita hafa þurft að fara í burtu frá vinum og vandamönnum þegar þeir geta ekki lengur verið heima hjá sér.

Svava Theódórsdóttir formaður kvenfélags Biskupstungna segir málið mikið í umræðunni meðal íbúa þar. Hún segir að kvenfélagið hyggist standa fyrir undirskriftasöfnun á meðal íbúa í uppsveitum á næstunni til stuðnings þessu málefni og í kjölfarið fylgja málinu eftir eins lengi og þeim þykir þörf á.

„Okkur finnst hart að þurfa að flytja aldrað og sjúkt fólk hreppaflutningum svo að það fái þá umönnun sem það þarfnast. Þetta er fólkinu sjálfu erfitt og gerir fjölskyldum þeirra erfiðara fyrir að heimsækja fólkið sitt og leggja sitt af mörkum til umönnunar þess,“ segir meðal annars í ályktuninni.