Vilja Guðrúnu sem ráðherra

Frá aðalfundi Óðins, Magnús Gíslason formaður er í pontu. Ljósmynd/Kjartan Björnsson

Sjálfstæðismenn í Árborg hafa skorað á forystu Sjálfstæðisflokksins að tryggja Guðrúnu Hafsteinsdóttur, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, ráðherrasæti í nýrri ríkisstjórn.

Aðalfundir Sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi og fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Árborg voru haldnir síðastliðinn miðvikudag á Hótel Selfossi. Þar var samþykkt ályktun þar sem skorað er á forystu flokksins að tryggja Guðrúnu ráðherrasæti.

„Slíkt er sjálfsagt í ljósi góðs fylgis við flokkinn í kjördæminu og þess að oddviti listans er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis,“ segir í ályktuninni.

Á fundunum var Magnús Gíslason endurkjörinn formaður Óðins og Ægir Gunnarsson var kjörinn nýr formaður fulltrúaráðsins. Hann tekur við formennsku af Ólafi Hafsteini Jónssyni og voru honum þökkuð góð störf.

Aðalfundur Óðins samþykkti einnig ályktun þar sem skorað er á fulltrúaráðið að stuðla að því að haldið verði prófkjör fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári.

Fyrri greinSelfyssingar sterkari í seinni hálfleik
Næsta greinHamar-Þór öflugar á útivelli