Vilja gefa íbúum kost á atkvæðagreiðslum

Varfærni í kosningaloforðum og sparnaður í rekstri sveitarfélagsins einkenna kosningastefnu VG í Árborg 2010.

Framboðið bryddar engu að síður á nýmælum í umhverfismálum, íbúalýðræði og leggur áherslu á eflingu atvinnulífs með stofnun nýsköpunarsjóðs sveitarfélagsins.

VG í Árborg vill að með undirskriftum 25-30% íbúa geti íbúar flutt mál úr hendi bæjarstjórnar í almenna atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla sem 60% íbúa tekur þátt í telst bindandi fyrir bæjarstjórn. Þá leggjum við áherslu á að hverfaráð fái sess í stjórnsýslu bæjarins.

Í umhverfismálum leggur VG áherslu á forystuhlutverk Árborgar og vill að sveitarfélagið hlutist til um umhverfismál á Suðurlandi öllu. Þá viljum við að Árborg verði lúpínulaust sveitarfélag.

Í atvinnumálum vill VG stuðla að kröftugri uppbyggingu og nýsköpun með stofnun nýsköpunarsjóðs sem sprotafyrirtæki geta sótt til. Sérstök áhersla verði lögð á að kynna sveitarfélagið og kosti þess fyrir ferðamenn og styðja þannig við atvinnugreinar í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi. Traust fjármálastjórn sveitarfélagsins er mikilvæg til að stuðla að gróskumiklu atvinnulífi.

Sjá nánar á heimasíðu VG í Árborg, http://vgarborg.is/

Fyrri greinGosmökkurinn lækkar
Næsta greinKFR úr leik í bikarnum