Rauði krossinn í Árnessýslu mun kynna fjölmörg verkefni félagsins á opnu húsi að Eyrarvegi 23 á Selfossi, fimmtudaginn 2. október milli kl. 17 og 19. Boðið verður upp á kaffi og súpu og spjall við sjálfboðaliða. Einnig verður Rauða kross-búðin opin.
„Með þessum viðburði viljum við minna á allt það starf sem okkar góðu sjálfboðaliðar sinna en einnig vonumst við til þess að fleira gott fólk gangi í okkar raðir,“ segir Edda Björk Hjörleifsdóttir, formaður Árnessýsludeildar Rauða krossins. „Við hvetjum því öll sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta líf annarra sérstaklega til að mæta en líka þau sem gætu hugsað sér að njóta góðs af verkefnunum okkar.“
Verkefni Rauða krossins er fjölbreytt, allt frá neyðarvörnum og sálfélagslegum stuðningi til skyndihjálpar, sölu á endurnýttum fatnaði og stuðningi við fólk í afplánun og fólk á flótta. Í félagslegu verkefnunum, svokölluðum vinaverkefnum, er markmiðið að rjúfa félagslega einangrun fólks og styrkja það til virkni og aukinnar þátttöku í samfélaginu. Heimsóknarvinir, gönguvinir og hundavinir eru meðal þessara verkefna. Sjálfboðaliðar sinna öllum þessum verkefnum og fleirum til og munu þeir miðla af þeirri reynslu sinni á opna húsinu.
„Þegar áföll dynja yfir, hvort sem eru hamfarir eða slys, eru sjálfboðaliðar í viðbragðshópum okkar oft kallaðir til,“ segir Edda. „Þeir sjá til dæmis um að opna fjöldahjálparstöðvar og veita sálræna fyrstu hjálp þegar þörf er á.“ Til þessara starfa fá þeir sérstaka þjálfun á vegum Rauða krossins.
Sömu sögu er að segja um störf sjálfboða í öðrum verkefnum, hvort sem þau fela í sér heimsóknir til fólks eða íslenskukennslu fyrir fólk á flótta.
„Það er gott og gefandi að vera sjálfboðaliði en það er líka mjög skemmtilegt,“ segir Edda sem talar af langri reynslu. „Og því fleiri Rauða kross-hjörtu sem slá í nærsamfélaginu þeim mun betra er það samfélag fyrir okkur öll.“

