Vilja fjölga bæjarfulltrúum úr níu í ellefu

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Árborgar var lögð fram tillaga um að fjölga bæjarfulltrúum í Árborg úr níu í ellefu.

„Ákvæði laga um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn gera ráð fyrir að í sveitarfélögum séu sjö til ellefu aðalmenn þegar íbúar sveitarfélags eru á bilinu 2.000-9.999. Nú eru íbúar Árborgar orðnir vel rúmlega 10.000 og nálgast óðfluga 11.000. Sveitarstjórnarlög heimila að fjölgun aðalmanna sé frestað þar til íbúatala hefur verið hærri en viðmiðunarmörk í fjögur ár samfellt,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is, en hann kynnti tillöguna á fundinum.

„Í Árborg eru engar horfur á að íbúum fækki þannig að fjöldinn fari aftur undir 10.000 og er því ekki ástæða til að fresta þessum breytingum sem lög gera ráð fyrir,“ bætir Gísli við.

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti að vísa tillögunni til síðari umræðu en minnihlutinn í D-listanu var ekki einhuga í málinu; Kjartan Björnsson var samþykkur, Brynhildur Jónsdóttir og Sveinn Ægir Birgisson sátu hjá en Ari Björn Thorarensen greiddi atkvæði á móti.

Fráleitt að fjölga bæjarfulltrúum
„Það er mín skoðun að það sé alveg fráleitt að fjölga bæjarfulltrúum að svo stöddu. Allt kostar peninga. Nær væri að gera bæjarstjórn virkari og fjölga bæjarstjórnarfundum, jafnvel leggja niður bæjarráð og hafa tvo til þrjá bæjarstjórnafundi í mánuði. Að mínu mati verður bæjarstjórn miklu óskilvirkari með mörgum bæjarfulltrúum. Er þá ekki nær að gera starfið eftirsóknaverðara, ef það er orðið skilvirkara?,“ spurði Ari þegar sunnlenska.is ræddi við hann.

„Sem dæmi hefur mér fundist fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík ekki hafa skilað sér í bættri borg, heldur verða alltaf einhverjir sem hverfa í fjöldann,“ bætti Ari við.

Að sögn Gísla bæjarstjóra er kostnaður við hvern bæjarfulltrúa í grunninn 290 þúsund krónur á mánuði með launatengdum gjöldum. Fyrir tvo bæjarfulltrúa væru það þá 7 milljónir króna árlega.

Fyrri greinGul viðvörun í nótt
Næsta greinInnkoma jólasveinanna fellur niður