Vilja fá lóðasölu rift

Íbúar í Grímsnes og Grafningshreppi hafa farið fram á riftun lóðasölu vegna rekstur hótels og veitingasölu Grímsborga sem ekki stenst fyrirliggjandi deiliskipulag að mati þeirra.

Sveitastjórnin hefur fengið erindi frá Lögfræðiþjónustu Sigurðar Sigurjónssonar í umboði Þórs Þórssonar og Hrafnhildar Markúsdóttur um riftun á lóðarsölunni.

Lögmanni sveitarfélagsins var falið að svara erindinu og hafnar hann riftuninni á þeirri forsendu að rekstrar- og veitingaleyfið er aðeins til eins árs. Sveitarstjórn staðfestir það.

Að sögn Ingibjargar Harðardóttur, sveitastjóra Grímsnes- og Grafningshrepps, var upphaflega ætlunin að byggja þarna íbúðarhúsnæði en í kjölfar hrunsins hefði Ólafur Laufdal, sem er eigandi hótelsins ákveðið að reyna hótelrekstur með tímabundnu leyfi.

Ingibjörg sagði að engin leið væri að segja til um það á þessu stigi hvort það yrði framlengt en þá myndi væntanlega koma til grenndarkynning enda þyrfti breytingu á deiliskipulagi ef hótelrekstur yrði varanlegur þarna.

Fyrri greinÓsamið um nýtingu Héraðsskólahúss
Næsta greinJónsi og félagar í Hvíta