Vilja ekki virkjun í Grændal

Á aðalfundi Sunnlenskrar orku ehf. nýverið gerði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, grein fyrir vilja Hveragerðisbæjar að bærinn hætti þátttöku í fyrirtækinu.

Sunnlensk orka ehf var stofnað árið 1999 í þeim tilgangi að kanna virkjunarkosti í Grændal og standa að jarðgufuvirkun og sölu á raforku.

Félagið fékk rannsóknarleyfi á Grændalssvæðinu og var áformað að virkja allt að 90 MW í þremur áföngum. Rarik á 90% hlut í fyrirtækinu en sveitarfélagið Ölfus og Hveragerðisbær tíu prósent í gegnum eignarhaldsfélag.

Að sögn Aldísar er það skoðun bæjaryfirvalda í Hveragerði að hagsmunum bæjarins sé betur borgið utan Sunnlenskrar orku enda sé andstaða við jarðvarmavirkjanir svo nálægt byggð.

Að því er heimildir Sunnlenska segja er ekki pólitískur vilji í sveitarstjórn Ölfuss fyrir virkjunarframkvæmdum í Grændal. Málið hefur þó ekki verið formlega tekið til umræðu þar.