Vilja ekki sjá ofskynjunarsveppi við skólann

Foreldrafélag Sunnulækjarskóla á Selfossi beinir þeim tilmælum til bæjar- og skólayfirvalda að koma í veg fyrir að ofskynjunarsveppir vaxi fyrir utan skólann að hausti.

Síðasta haust varð stjórnin vitni að því að ungur maður var að týna sveppi á grasbala fyrir utan skólann. Þetta kemur fram í janúarfréttabréfi foreldrafélagsins.

Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Selfossi, berast yfirleitt einhverjar tilkynningar á haustin um sveppatínslufólk, þó að engin tilkynning þess efnis hafi komið upp á síðasta ári.

„Lögreglumenn taka slíkar tilkynningar og kanna hvað í þeim felst. Sveppir hafa hins vegar ekki verið haldlagðir hér síðan 2012 þegar tvö tilvik komu upp,“ sagði Þorgrímur Óli en í að minnsta kosti annað skiptið var aðili að tína sveppi í nágrenni Sunnulækjarskóla.

Fyrri greinFagurgerði komið í loftið
Næsta greinNýtist í æfingum fyrir stórslys