Vilja „eðlilega endurgreiðslu“ fyrir hitaveituna

Bæjarstjórn Hveragerðis hefur sent stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beiðni um viðræður til að kanna grundvöll þess að Hitaveitu Hveragerðisbæjar verði skilað aftur til Hvergerðinga.

Í bókun bæjarstjórnar frá fundi hennar í gær kemur fram að Hvergerðingar óski þess að veitunni verði skilað gegn eðlilegu endurgjaldi.

Eins og sunnlenska.is greindi frá finnst meirihluta bæjarstjórnar óásættanlegt að íbúar Hveragerðis þurfi að taka á sig gjaldskrárhækkanir vegna bruðls í rekstri OR.

Á bæjarstjórnarfundinum í gær kom fram að í 17. grein samningsins um sölu hitaveitunnar frá 2004 er ákvæði um forkaupsrétt Hveragerðisbæjar hyggist Orkuveitan selja Hitaveitu Hveragerðis. Nú hefur ítrekað komið fram skýr vilji OR til að lækka skuldir með sölu eigna.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum meirihluta Sjálfstæðismanna á fundi bæjarstjórnar í gær en tveir fulltrúar minnihlutans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.