Vilja byggja upp öfluga rannsóknarmiðstöð garðyrkjunnar að Reykjum

Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi. Ljósmynd/LbhÍ

Ný stefna Landbúnaðarháskóla Íslands leggur áherslu á að stórefla nýsköpun, rannsóknir og kennslu. Markmið skólans sé að byggja upp öfluga rannsóknar- og nýsköpunarmiðstöð á sviði garðyrkju að Reykjum.

Í frétt frá Landbúnaðarháskólanum segir að stefnan hafi fengið góðar undirtektir hjá hagaðilum og stjórnvöldum og mikill hugur sé í starfsmönnum. Þegar er farið að huga að stórum verkefnum til að efla aðstöðu skólans og starfsmönnum og nemendum hefur fjölgað í haust.  Unnið er að því að fjármagna og koma á fót stórum alþjóðlegum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í samstarfi við háskóla sem eru hvað fremstir á sviði landbúnaðar og garðyrkju í heiminum.

Mikil tækifæri til eflingar starfsmenntanáms
Landbúnaðarháskólinn hefur þá sérstöðu að bjóða bæði upp á háskólanám og starfsmenntanám á framhaldsskólastigi. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor skólans, segir að ekki standi til að færa starfsmenntanámið af framhaldsskólastigi, en það eru mikil tækifæri til eflingar þess með aukinni tengingu við nýsköpun og rannsóknir.

„Staðsetning starfsmenntanáms innan háskóla er augljós styrkur, ekki einungis fyrir starfsmenntanámið sem nýtur góðs af rannsóknum og nýsköpun háskólastigsins, heldur einnig fyrir háskólastarfið sem hefur hag af nálægð við verkþekkinguna,“ segir Ragnheiður en Landbúnaðarháskólinn starfrækir meðal annars starfsmenntanám í garðyrkjuframleiðslu og skrúðgarðyrkju að Reykjum í Ölfusi.

Mikilvægt starf á Reykjum
„Garðyrkjunám á Reykjum á sér langa og farsæla sögu og þar hefur verið unnið gríðarlega mikilvægt starf.  Við ætlum okkur að efla þetta starf enn frekar með auknu alþjóðlegu samstarfi og aukinni sókn í erlent fjármagn,“ segir Ragnheiður.

„Ísland hefur alla burði til að verða leiðandi á sviði garðyrkjurannsókna og garðyrkjuframleiðslu í heiminum.  Með styrku samstarfi má skapa fleiri verðmæt störf og skipa okkur sess sem miðstöðvar þekkingar á sviði sjálfbærrar framleiðslu.  Kjarninn í stefnu Landbúnaðarháskólans er að styrkja starfsmenntanámið sem og háskólanámið, efla nýsköpun og fjölga útskrifuðum nemendum sem geta byggt upp verðmæti,” bætir Ragnheiður við.

Fyrri greinVerkstæði á Hellu mikið skemmt eftir eldsvoða
Næsta greinTekinn fyrir ölvunarakstur í tólfta sinn