Vilja bætur vegna framkvæmda á Austurveginum

Eigendur verslana við Austurveg á Selfossi vilja fá bætur frá sveitarfélaginu Árborg vegna tekjutaps í kjölfar lokana og þrenginga vegna framkvæmda við Austurveginn á árinu.

Í bréfi sínu til bæjarráðs Árborgar segja rekstraraðilar Fjallkonunnar sælkerahúss og Sjafnarblóma að þessi endurteknu og langvarandi inngrip í aðgengi að verslunum við Austurveg hafi komið mjög þungt niður á rekstri verslananna.

„Austurveginum hefur verið lokað og aðgangur að verslununum skertur ítrekað vegna framkvæmda sem hafa tekið lengri tíma en eðlilegt má teljast,“ segir í bréfinu frá verslunareigendunum sem segja tekjutapið verulegt.

Bæjarráð tók erindið fyrir í morgun og bendir á að nauðsynlegt sé að endurnýja götur og veitulagnir til að tryggja að unnt sé að veita umferð um bæinn og að afhendingaröryggi veitna sé tryggt.

„Leitast er við að auglýsa lokanir og leiðbeina vegfarendum um hjáleiðir og aðkomu að fyrirtækjum og t.d. voru lokanir í vor auglýstar mjög rækilega. Bæjarráði þykir miður að verslunareigendur upplifi tjón af þessum völdum en telur ekki um bótaskylt tjón að ræða,“ segir í bókun bæjarráðs.

UPPFÆRT: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að þarna væri einungis um að ræða rekstraraðila Fjallkonunnar og Sjafnarblóma. Áskorunin er einnig undirrituð af rekstraraðilum Bókakaffisins, Sportbæjar, Hjólabæjar, Karls R. Guðmundssonar úrsmiðs og Motivo. Þessir aðilar mótmæla því hversu mjög framkvæmdir við Austurveginn hafa valdið truflunum og lokunum við Austurveginn og skora á bæjaryfirvöld að bæta verslununum upp það tjón sem orðið hefur en þessi inngrip hafi stórskaðað rekstur verslananna.

Fyrri greinHyggjast stytta opnunartíma leikskóla og skólavistunar
Næsta greinSkrifuðu meira en 150 smásögur