Vilja bætta vetrarþjónustu og farsímasenda á Suðurstrandarvegi

Bæjarráð Ölfuss tekur undir áskorun bæjarráðs Árborgar um að Vegagerðin breyti skilgreiningu á vetrarþjónustu á Suðurstrandarvegi á þann hátt að þjónusta á veginum verði færð upp um þjónustuflokk.

Í dag fellur vegurinn undir þjónustuflokk 4 líkt og vegir þar sem meðalumferð nemur innan við 100 bílum í vetrardagsumferð. Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar mældist umferð þegar á árinu 2014 umtalsvert meiri og hefði þjónustu á veginum átt að breytast samkvæmt því þegar á því ári. Miðað við umferð ætti Suðurstrandarvegur að vera í þjónustuflokki 3 og vera með vetrarþjónustu 5 daga vikunnar.

Í áskoruninni segir að vegna tíðra lokana Suðurlandsvegar á Hellisheiði og í Þrengslum sé mjög brýnt að hafa möguleika á að beina umferð um Suðurstrandarveg. Lokanir á Suðurlandsvegi hafa mikil og neikvæð áhrif á íbúa og fyrirtæki á svæðinu og nauðsynlegt að hafa aðra leið færa milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins/Suðurnesja.

Bæjarráð Ölfuss fól bæjarstjóra að fylgja málinu eftir við Vegagerðina og áréttaði jafnframt nauðsyn þess til að tryggja öryggi vegfarenda og út frá almannavarnarsjónarmiðum. Þannig þurfi sem fyrst að ráðast í uppsetningu senda á Suðurstrandarvegi og Þrengslavegi en stór hluti Suðurstrandarvegar og hluti Þrengslavegar eru utan farsímasambands.

Fyrri grein„Þetta er náttúrulega geðveiki á háu stigi“
Næsta greinLitlagleði í vetrarfríi á Bókasafninu