Vilja bæta öryggi og aðstöðu í Reykjadal

Bæjarráð Hveragerðis mun leggja til eina milljón króna til nauðsynlegra úrbóta í öryggismálum í Reykjadal og nágrenni á næsta ári. Sama framlag komi frá Ölfusi og Eldhestum.

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var tekið fyrir minnisblað af fundi sem fulltrúar Hveragerðis, Ölfuss og Landbúnaðarháskólans áttu þann 16. nóvember um Reykjadal og Grænsdal.

Í minnisblaðinu kemur fram vilji til þess að unnið verði að friðlýsingu Reykjadals og Grænsdals. Ennfremur kemur fram að brýnt sé að bæta öryggismál í dalnum og stýra umferð eftir betur skilgreindum göngu- og reiðleiðum. Einnig þarf að brúa læki á ákveðnum stöðum, skiltamál eru í ólestri og eins þarf að koma upp aðstöðu fyrir ferðamenn, s.s. salernisaðstöðu og aðstöðu til fataskipta við heita lækinn.

Mikil umferð göngu- og hestamanna er um svæðið en samkvæmt upplýsingum sem sunnlenska.is hefur frá Hjálparsveit skáta í Hveragerði hafa björgunarsveitir sjö sinnum verið kallaðar til í Reykjadal eða nágrenni til leitar eða vegna slysa það sem af er ári. Fjöldi útkalla er svipaður á hverju ári en síðustu þrjú ár hafa björgunarsveitir sinnt níu slysum og tíu leitum á svæðinu.

Í minnisblaðinu kemur fram vilji til þess að sótt verði um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á þessu ári. Til að byrja með verði sótt um styrk til undirbúnings friðlýsingar og nauðsynlegra úrbóta á öryggismálum á svæðinu.

Bæjarráð fagnar því að samstaða skuli vera um framtíðaráform um friðlýsingu Reykjadals og Grænsdals en þetta svæði er orðið afar eftirsótt sem útivistarsvæði enda einstakt á heimsvísu auk þess að vera ákjósanlega staðsett í jaðri stærsta þéttbýlis þjóðarinnar.

Bæjarráð leggur til að við fjárhagsáætlunargerð ársins 2012 verði lögð 1 milljón króna til nauðsynlegra úrbóta á svæðinu enda er samkomulag um það milli aðila að sama framlag komi frá Sveitarfélaginu Ölfusi og Eldhestum.