Vilja ART-verkefnið aftur á fjárlög

Bæjarráð Hveragerðibæjar biðlar til þingmanna að ART-verkefnið fái áframhaldandi fjárstuðning frá Alþingi. Ekki var gert ráð fyrir frekari fjármögnun á verkefninu á fjárlögum ársins 2016.

Bæjarráð samþykkti þetta samhljóða með bókun á síðasta fundi sínum.

ART er vel afmörkuð og árangursrík aðferð sem byggir á félagsfærni, sjálfstjórn og siðferði og miðar að því að draga úr erfiðri hegðun hjá börnum og ungu fólki, t.d. þeim sem greinst hafa með ýmis konar þroskaraskanir, ofvirkni og alvarlegar atferlistruflanir.

Björgvin G. Sigurðsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hafði spurt félags- og húsnæðismálaráðherra um framtíð ART-verkefnisins fyrir skömmu. Í svari ráðherra kom fram að ekki væri gert ráð fyrir frekari fjármögnun verkefnisins

Bæjarráð Hveragerðis leggur ríka áherslu á að framtíð ART verkefnisins verði tryggð og hvetur þingmenn til að standa vörð um þetta mikilvæga verkefni sem hefur nýst börnum og fjölskyldum þeirra mjög vel á undanförnum árum.

„Með tilkomu ART verkefnisins hefur dregið mjög úr sértækum úrræðum sem eru kostnaðarsöm fyrir ríkið. Ekki er nógsamlega hægt að ítreka mikilvægi þess að íbúar eigi kost á þjónustu sem þessari í heimabyggð,“ segir í bókun bæjarráðs.

Fyrri greinÞórir samdi til 2020
Næsta greinUndirbúningur á fullu fyrir Jólamót Kjörís