Vilja að náttúran fái sterkara umboð í samfélaginu

Frá fundinum í Miðgarði, menningarmiðstöð Reykjavíkur í Úlfarsárdal um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Náttúruverndarsamtök sem starfa á Íslandi, vilja að náttúran fái sterkara umboð í samfélaginu. Meðal annars sé nauðsynlegt er að stofna embætti umboðsmanns náttúrunnar.

Þetta kemur fram í ályktun samstöðufundar Landverndar sem haldinn var í Reykjavík um síðustu helgi. Samtökin telja að sami ráðherra eigi ekki að fara með umhverfis og orkumál heldur eigi að hafa öflugan ráðherra sem hafi umhverfisvernd að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

„Auka þarf náttúrulæsi, virðingu og tilfinningu fyrir náttúrunni, gegnum skólakerfið og til almennings enda eru umhverfismál lýðheilsumál. Náttúruverndarsamtök ætla að leggja sitt að mörkum í þessu, með auknu samráði, fræðslu og öflun upplýsinga um öll svið umhverfisverndar. Einnig þarf að fræða um loftslags- og orkumál í landinu og greiða úr þeirri upplýsingaóreiðu sem þar ríkir. Samtökin vilja vinna gegn náttúrutapi á Íslandi og skora á stjórnvöld að taka þátt í þeirri vinnu,“ segir í ályktuninni.

Á annað hundrað manns úr umhverfisverndarhreyfingunni um land allt sóttu fundinn, þar voru meðal annars mættir fulltrúar úr Ungum umhverfissinnum, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Vinum íslenskrar náttúru, Náttúrugriðum, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Eldvötnum, Vinum Þjórsárvera, Landvarðafélaginu, útivistarfélögum og skátunum, auk einstaklinga víða að.

Fyrri greinLífland og Meistaradeild æskunnar undirrita samstarfssamning
Næsta greinGlódís Rún íþróttamaður Ölfuss 2023