Vilja að umhleðslustöðinni sé lokað

Flugklúbbur Selfoss krefst þess að Sorpstöð Suðurlands loki nýrri umhleðslustöð sorps við Selfossflugvöll.

Ástæðan er sú að Flugmálastjórn hefur lokað annarri flugbraut vallarins vegna hættu af fuglum við flugbrautina en 40 metrar eru á milli stöðvarinnar og flugbrautarinnar.

Nokkrar vikur eru síðan umhleðslustöðin var opnuð á gámasvæði Árborgar í Melamýri í Sandvíkurhreppi. Strax í kjölfarið fóru vargfuglar að sveima í kringum stöðina til að ná sér í æti og þar hafa þeir verið meira og minna síðan stöðin var opnuð. Mávagerið skapar mikla hættu við Selfossflugvöll og gagnrýna flugklúbbsmenn yfirvöld fyrir að hlusta ekki á athugasemdir flugmanna áður en umhleðslustöðin var opnuð.

„Það var ekkert hlustað á okkar athugasemdir eða aðvaranir, sem við þó gáfum til kynna áður en var ráðist í þessar framkvæmdir. Við mótmælum hreinlega þessum yfirgangi. Við teljum að það eina sem hægt er að gera sé að flytja umhleðslustöðina fyrir sorp, eitthvað annað. Aðalatriðið er þetta: Umhleðslustöð fyrir heimilissorp þar sem heimilissorp er í opnum sílóum á ekki heima í næsta nágrenni við flugvöll, hvort sem er hér á Selfossi eða annars staðar. Það er krafa okkar að stöðinni verði lokað sem hið allra fyrsta,“ sagði Helgi Sigurðsson, formaður Flugklúbbs Selfoss, í fréttum RÚV í gærkvöldi.

Á fréttavef RÚV kemur fram að Örn Þórðarson, formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, vissi ekki af lokun flugbrautarinnar þegar fréttastofa hafði samband við hann. Örn segir lítið mál að loka umhleðslustöðinni ef hún veldur vandræðum.

Fyrri greinAuka þarf öryggi á Geysissvæðinu
Næsta greinGötuboltamót á Hellu