Vilja að styrkveitingar verði rannsakaðar

Vinstri græn, Samfylking, Píratar og Björt framtíð vilja að Ríkisendurskoðun rannsaki styrkveitingar forsætisráðuneytisins til ýmissa verkefna.

Þingflokkarnir hafa farið fram á það við forsætisnefnd Alþingis að hún óski eftir rannsókn og skýrslu frá Ríkisendurskoðun um tæplega 200 milljóna króna styrkveitingum forsætisráðuneytisins til til húsfriðunarverkefna, menningartengdra byggðarverkefna, fornleifaverkefna og atvinnuuppbyggingar.

Forsætisráðuneytið hefur áður svarað tveimur fyrirspurnum vegna þessa en stjórnarandstöðuflokkarnir segja svörin leiða í ljós óljósa stjórnsýslu og ógagnsæi við úthlutun opinbers fjár og því telja þingflokkarnir tilefni til að óska eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar að málinu.

Af þessum 200 milljónum er gert ráð fyrir að um 25 milljónum króna verði varið til verkefna á Suðurlandi á þessu ári. Tíu milljónum króna verður varið til að hefja endurbyggingu Múlakots í Fljótshlíð. Tíu milljónum króna varið til Íslenska bæjarins að Meðalholti í Flóa og fimm milljónum varið í að gera sökkul undir húsið Ingólf á Selfossi og flytja það.