Vilja að skjálftum linni

Iðnaðar- og umhverfisráðuneytið hafa óskað eftir því að mikil skjálftavirkni við Hellisheiðarvirkjun verði skoðuð. Hvergerðingar vilja að skjálftunum linni

Enn önnur skjálftahrina mældist við Hellisheiðarvirkjun seint í gærkvöldi. Stærsti skjálftinn mældist þrír á richter og fannst hann vel í Hveragerði. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir íbúa orðna þreytta á þessu sífelldu skjálftum. „ Fólk óttast jarðskjálfta hér í Hveragerði og það er ekkert skrýtið. Það er mjög stutt síðan að mjög stór skjálfti reið hér yfir. Fólk er hvekkt. Það er hrætt og mér finnst að það eigi ekki leika sér með þessum hætti að náttúrunni”.

Þúsundir skjálfta hafa orðið við virkjunina á síðustu vikum. Ástæðan fyrir skjálftunum er sú að Orkuveitan hóf fyrir skömmu að dæla affallsvatni frá virkjuninni niður í sprungur á svæðinu. Við það myndast þrýstingur sem kemur skjálftunum af stað. Aldís segir bæjarbúa finna vel fyrir stærstu skjálftunum. „ Við finnum fyrir þeim þegar þeir eru komnir yfir tvo og við höfum fundið mjög vel fyrir þeim skjálftum sem hafa verið á milli þrír og fjórir á richter. Enda eru það orðnir nokkuð stórir skjálftar”.

Aldís á von á því að málið verði tekið upp á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn. Þá ætlar hún að kalla eftir svörum frá Orkuveitunni vegna málsins. Sérfræðingar Veðurstofunnar telja enga hættu á ferðum en umhverfisráðuneytið hefur engu að síður óskað eftir því að þeir skoði stöðuna betur og ræði málið við almannavarnir strax eftir helgi. Þá ætlar iðnaðarráðuneytið að láta Orkustofnun skoða skjálftavirkni á svæðinu eftir helgi.

Aldís telur að Orkuveitan verði að breyta starfsaðferðum sínum svo íbúarnir þurfi ekki að búa við síendurtekna skjálfta. „ Þetta vekur ugg hjá fólki. Ég sé það ekki alveg fyrir mér að þetta geti verið framtíðarlausn á niðurdælingunni. Sérstaklega ekki, þegar við erum komin með bæði Hverahlíð og Gráuhnjúka í fulla vinnslu, þá held ég að þetta geti ekki verið leiðin”.

Fyrri greinEva Lind skoraði í sigri Íslands
Næsta greinPew bestur hjá Árborg