Vilja að samvinnuhreyfingarinnar verði minnst í miðbænum

Kaupfélag Árnesinga hefur farið fram á það við Sveitarfélagið Árborg að gert verði ráð fyrir reit í nýju skipulagi miðbæjarins á Selfossi sem tileinkaður verði Samvinnuhreyfingunni á Selfossi.

Tillaga þessa efnis var samþykkt á aðalfundi Kaupfélags Árnesinga síðastliðið sumar. Í bréfinu til bæjarstjórnar Árborgar segir að Kaupfélagið hafi verið stór þátttakandi í þróun byggðar og atvinnumála á Selfossi og í Árnessýslu allri, allt frá stofnun félagsins árið 1930 og til síðustu aldamóta.

Þykir því velunnurum félagsins við hæfi að þess verði minnst með þessum hætti, án þess að það sé útlistað frekar hvað gæti verið á Samvinnuhreyfingarreitnum í miðbænum.

Bæjarráð tók jákvætt í erindið á síðasta fundi sínum og vísaði því inn í skipulagsvinnuna.

Fyrri greinKvartað undan ólöglegri losun á rusli
Næsta greinGríðarlegur eldur á Selfossi