Vilja að ríkið styrki almenningssamgöngur

Helgi S. Haraldsson, áheyrnarfulltrúi B-lista í bæjarráði Árborgar, segir að á niðurskurðartímum sé mikilvægt að fjármagn komi frá ríkinu svo að strætóferðir til Reykjavíkur falli ekki niður.

Árborg og Hveragerðisbær eru í samstarfi um strætóferðir milli Árborgar, Hveragerðis og Reykjavíkur og greiða sveitarfélögin háar fjárhæðir árlega með þessum samgöngumáta.

Á fundi bæjarráðs í morgun var lagði Helgi fram bókun þar sem hann segir að nú á tímum, þegar sveitarfélög þurfa að skera niður í ýmsum málaflokkum, sé hætta á að verkefni eins og almenningssamgöngur, sem ekki eru lögbundnar, verði fyrir niðurskurðarhnífnum. Því er mikilvægt að fjármagn komi frá ríkinu til þess að svo verði ekki og að hugur fylgi máli.

Fulltrúar V-, S- og D-lista tóku undir bókunina á fundinum.