Vilja að hreppurinn reki Blesastaði

Eigendur dvalar- og hjúkrunarheimilisins á Blesastöðum á Skeiðum hafa sent sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps erindi þar sem þau óska eftir aðkomu sveitarfélagsins að rekstri dvalarheimilisins, ýmist með því að leigja reksturinn eða kaupa.

Að því er segir í fundargögnum urðu allnokkrar umræður um málið. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er ekki tilbúin að svo stöddu að taka við rekstrinum en engu að síður lýsir hún sig reiðubúna til að taka öldrunarmál til gagngerrar skoðunar.

Eftir því sem næst verður komist var sveitarstjórnarfulltrúum í nágrannasveitarfélögum greint frá erindinu í ljósi umræðu um öldrunarmál, en engin afstaða tekin til málsins.

Á Blesastöðum eru fjögur hjúkrunarrými og átta dvalarrými. Málefni öldrunarþjónustu eru til umræðu hjá sérstakri nefnd innan Héraðsnefndar Árnessýslu.

Fyrri greinGasmengun á Suðurlandi á laugardag og sunnudag
Næsta greinSlæm umgengni í iðnaðarhverfinu