Vilja að börnum sé tryggður akstur í íþróttastarf eftir skóla

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur nú til skoðunar erindi frá nokkrum aðilum í sveitarfélaginu sem leggja áherslu á að börnum í sveitarfélaginu sé tryggður akstur í tómstunda- eða íþróttastarf að loknum skóladegi.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar voru lögð fram fjögur erindi þessa efnis frá stjórnendum Flóaskóla, foreldrum í sveitarfélaginu, fulltrúum í stjórn foreldrafélags Flóaskóla og frá ungmennafélögunum í hreppnum.

Í öllum erindunum er lögð áhersla á að börnum sé tryggður akstur i tómstundastarf eða íþróttastarf að loknum skóladegi, bæði á Selfoss og í Þingborg og tryggt sé að allir íbúar njóti jafnræðis varðandi þennan akstur. Vísað er til áhersluatriða í skólastefnu Flóahrepps varðandi þetta.

Á fundinum var oddvita og sveitarstjóra falið að vinna málið áfram í samráði við Flóaskóla og æskulýðs- og tómstundanefnd. Sveitarstjórn hyggst leita leiða til að skipuleggja akstur þannig að öll börn eigi kost á akstrinum en tekur fram að þessi þjónusta hafi ekki verið kostuð af sveitarfélaginu hingað til. Ljóst sé að um stórt samstarfsverkefni sé að ræða.

Fyrri greinHamar lá í valnum
Næsta greinGuðmundur Garðar til Ægis