Vilja að Árborg stofni ungbarnaleikskóla

Ungmennaráð Árborgar sat síðasta bæjarstjórnarfund og bar fram nokkrar mjög athyglisverðar tillögur. Ein þeirra var að Árborg skoði þá möguleika að stofna ungbarnaleikskóla í sveitarfélaginu.

Í greinargerð með tillögunni segir að erfitt sé að koma ungbörnum til dagmömmu þar sem þær eru ekki margar í sveitarfélaginu.

„Að auki hefur fjöldi dagmæðra í sveitarfélaginu verið sveiflukenndur og ekki alltaf í takt við fjölda ungbarna. Það myndi hjálpa foreldrum að byrja fyrr í vinnu og býður upp á meiri stöðugleika í þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna að ef dagmamma er veik eða frá vinnu af öðrum ástæðum þurfa foreldrar að útvega aðra gæslu fyrir barnið. Hjá ungbarnaleikskólum er auðveldara að finna afleysingu ef starfsmaður er veikur eða er á annan hátt frá vinnu,“ segir í greinargerðinni.

Eftir umræður um tillöguna samþykkti bæjarstjórn að vísa tillögunni til umfjöllunar í fræðslunefnd sveitarfélagsins.

Fyrri greinJafnt hjá Selfossi og HK
Næsta greinDramatík þegar Hartmann skaut Árborg í úrslitakeppnina