Vilja að þingmenn biðjist afsökunar

Sveitarstjórn Flóahrepps fer fram á það við forseta Alþingis að hann beiti sér fyrir því að þingmenn sem hafa sakað sveitarstjórnarmenn um að þiggja mútur, biðjist afsökunar og dragi ummælin til baka.

Verði það ekki gert er því beint til forseta að áminna viðkomandi þingmenn fyrir ummæli sín.

Ályktun þessa efnis var samþykkt í sveitarstjórn Flóahrepps í gær. „Sveitarstjórn Flóahrepps gerir alvarlegar athugasemdir við ummæli nokkurra alþingismanna og ráðherra í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Íslenska ríkisins gegn Flóahreppi. Fyrstu dagana eftir að dómur var upp kveðinn, féllu á Alþingi afar ómakleg og niðrandi ummæli í garð fyrrverandi sveitarstjórnar Flóahrepps og þeim ekki sæmandi sem þau viðhöfðu.

Talað var um mútur og það að kaupa sér skipulag. Þeim hinum sömu skal á það bent að mútur er refsivert athæfi. Íslensk orðabók skilgreinir orðið mútur á eftirfarandi hátt: „greiðsla fyrir vafasaman eða rangan verknað, peningar eða fjármunir bornir á e-n í hagnaðarskyni“.

Sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi hafa ekki þegið mútur. Sveitarstjórn Flóahrepps beitti sér hinsvegar fyrir því að fá Landsvirkjun til þess að kosta samfélagsleg verkefni á svæðinu ef gera ætti ráð fyrir virkjun við Urriðafoss. Það hefur verið litið svo á það sé ekki hlutverk Landsvirkjunar sem opinbers fyrirtækis að þvinga virkjunarframkvæmdum upp á heimamenn án þess að það samfélag sem um ræðir hafi einhvern hag af framkvæmdinni. Þær fullyrðingar og dylgjur um að samið hafi verið um framkvæmdir og greiðslur beint til sveitarstjórnarmanna eru tilhæfulausar og með öllu ósannar.

Ákvörðun var tekin um að gera ráð fyrir virkjun á aðalskipulaginu m.a. til að koma í veg fyrir misræmi á svæðinu öllu en þau sveitarfélög sem koma að virkjunum í neðri hluta Þjórsár hafa nú þegar gert ráð fyrir þeim á sínu aðalskipulagi og tvö þeirra eru nýlega staðfest. Fyrrverandi sveitarstjórn vildi hins vegar tryggja íbúum Flóahrepps ákveðnar mótvægisaðgerðir ef af virkjun verður því lög um tekjustofna sveitarfélaga heimila eingöngu skattlagningu á stöðvarhúsbyggingar sem ekki koma til með að verða staðsettar í Flóahreppi.

Ljóst er að sitt sýnist hverjum um virkjun í neðri hluta Þjórsár en það að blanda sveitarstjórn og skipulagsmálum Flóahrepps inn í þá umræðu er með öllu fráleitt. Sveitarstjórn Flóahrepps fjallaði um Urriðafossvirkjun á aðalskipulagi vegna þess að Landsvirkjun í umboði stjórnvalda fór fram á það. Fulltrúar Landsvirkjunar hafa jafnframt lýst því yfir að fyrirtækið fari ekki í virkjunarframkvæmdir nema í fullri sátt við ríkisstjórn þannig að fullvíst má telja að það verður ekki sveitarstjórn Flóahrepps sem ákveður hvort virkjað verði eða ekki, hafi ríkt einhver misskilningur um það.

Það er alvarlegur hlutur þegar alþingismenn misnota aðstöðu sína á Alþingi til þess að bera út róg um fjarstadda sveitarstjórnarmenn. Sveitarstjórn Flóahrepps fer fram á það við forseta Alþingis að hann beiti sér fyrir því að þeir alþingismenn sem farið hafa offari í fullyrðingum í þingsal Alþingis, biðjist afsökunar og dragi þessi ummæli til baka. Verði það ekki gert er því beint til forseta að áminna viðkomandi þingmenn fyrir ummæli sín.“

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinEiríkur fjallar um Stórubólu
Næsta greinHvatagreiðslur hækka um milljón milli ára