Vilius heiðraður í heimabænum

Dovydas Kaminskas, bæjarstjóri, afhendir Vilius Rašimas sendiherramerkið. Ljósmynd/Dovydas Kaminskas

Vilius Rašimas, markvörður Selfossliðsins í handbolta, gekk í dag á fund Dovydas Kaminskas, bæjarstjóra í Tauragė í Litháen, þar sem hann var gerður að heiðurssendiherra bæjarins.

Kaminskas greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni í dag og segir að þarna sé á ferðinni maður sem bæjarbúar geti verið virkilega stoltir af, enda standi hann vörð bæði um mark Selfoss á Íslandi og mark litháenska landsliðsins.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Vilius að hann sé stoltur af heiðrinum sem heimabærinn sýnir honum, en hlutverk sendiherranna sé að halda merki Tauragės og Litháen á lofti.

„Þetta er verkefni sem komið var á laggirnar í heimabænum mínum til þess að tengjast fólki um allan heim sem er frá Tauragė. Verkefni mitt er að vera fulltrúi bæjarins og þetta hjálpar mér einnig til þess að tengjast bænum mínum aftur. Ég er innblásinn af því hvernig fólk frá Selfossi virðist vera tengt heimabænum sínum. Það hefur mér þótt mjög athyglisvert og aðdáunarvert að sjá,“ sagði Vilius í samtali við sunnlenska.is og staðfesti um leið að hann muni standa í marki Selfoss á næstu leiktíð.

Fyrri greinÁsta áfram sveitarstjóri í Bláskógabyggð
Næsta greinBlikarnir betri á heimavelli