Vilhjálmur stefnir á 4. sætið

Vilhjálmur Árnason, lögreglumaður í Grindavík, gefur kost á sér í 4. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar.

Vilhjálmur hefur lengi unnið innan Sjálfstæðisflokksins og verið kjörin í ýmis trúnaðarstörf innan hans. Í síðustu kosningum skipaði hann 6. sæti á framboðslista í suðurkjördæmi og er hann varaþingmaður. Vilhjálmur er jafnframt varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Grindavík og var formaður skipulags- og umhverfisnefndar Grindavíkur.

Vilhjálmur á tvö börn með sambýliskonu sinni, hann hefur verið í atvinnurekstri, unnið að bæjarmálum, verið í sveit og er nú starfandi lögreglumaður og laganemi. Þá sat hann í fjögur ár í stjórn Landssambands lögreglumanna.

Vilhjálmur segist bjóða fram krafta sína til að vinna að hagsmunum fjölskyldufólks og ætlar hann að beita sér fyrir frelsi einstaklingsins til athafna. Á Alþingi hyggst hann vinna að auknum tækifærum á landsbyggðinni og styrkja þannig heimilin.

Fyrri greinFestust í vísindaferð
Næsta greinHefur selt tæki fyrir 200 milljónir króna síðustu tvö ár