„Vildum gera eitthvað öðruvísi“

Linda Rós Jóhannesdóttir. Ljósmynd/Halldóra Guðlaug Þorvaldsdóttir

Verslunin Stúdíó Sport á Selfossi hefur vakið athygli fyrir fjölbreytta og áhugaverða fyrirlestra í versluninni.

„Þegar við opnuðum verslunina þá vorum við sammála um að þetta ætti að vera lifandi verslun. Gera eitthvað öðruvísi og meira en gengur og gerist í öðrum verslunum. Þetta var svona fyrsta skrefið í því,“ segir Linda Rós Jóhannesdóttir, eigandi Stúdíó Sport, í samtali við sunnlenska.is.

„Fyrirlestrarnir fjalla um hreyfingu, heilsu og mataræði, jákvæða hugsun, markmið og fleira. Við byrjuðum í janúar með okkar fyrsta fyrirlestur og voru þeir fjórir talsins síðasta vor. Við tókum okkur svo pásu yfir sumarið og byrjuðum svo aftur núna í haust með flottum fyrirlestri frá Begga Ólafs,“ segir Linda.

„Við áttuðum okkur á því að þetta tæki tíma, að fá fólk til þess að koma en við getum vel sagt að þetta sé allt að koma og gestafjöldinn eykst alltaf hjá okkur,“ segir Linda aðspurð hvernig viðtökurnar hafi verið.

Að sögn Lindu eru fyrirlestrarnir fyrir alla þá sem hafa áhuga á heilsu, hreyfingu og jákvæðni. „Við ættum alltaf að geta tekið eitthvað með okkur eftir þessa fyrirlestra, þó það sé ekki nema góð áminning.“

Næsti fyrirlestur í Stúdíó Sport er fimmtudaginn 18. október næstkomandi. „Við fáum þá Ásdísi grasalækni í heimsókn og mun hún meðal annars fjalla um heilsusamlegt mataræði án öfga, sykurlöngun og náttúruleg sætuefni og þarmaflóruna og áhrif hennar á heilsu okkar og líðan. Við mælum eindregið með fyrirlestrinum enda mikil reynsla og þekking hjá Ásdísi,“ segir Linda.

Sigurjón Ernir mun svo koma í nóvember og fjalla um áhrif matar á líkamann og föstu fyrir bætta heilsu. Við tökum svo smá pásu í desember og fáum svo Bjarna Fritz með fyrirlestur fyrir foreldra sem eiga börn í íþróttum,“ segir Linda að lokum og hvetur sem flesta til að mæta á fyrirlestrana.

Facebook-viðburðurinn.

Fyrri greinÆvintýraferð fjölskyldunnar á Suðurland í haustfríinu
Næsta greinÞór mætir Snæfelli á útivelli