Vildu gefa vörunum það pláss sem þær eiga skilið

Linda Rós Jóhannesdóttir í nýju versluninni við Austurveginn. sunnlenska.is/Jóhanna von Sandvík

Verslunin Stúdíó Sport hefur flutt í nýtt húsnæði að Austurvegi 9 á Selfossi, í sama hús og Íslandsbanki.

„Við vildum gefa vörunum okkar það pláss sem þær eiga skilið, auk þess sem okkur vantaði stærri lager,“ segir Linda Rós Jóhannesdóttir í samtali við sunnlenska.is.

„Það gekk vel að standsetja húsnæðið og undirbúningurinn gekk vel. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og mikil ánægja í samfélaginu, sem er mjög gaman að upplifa.“

Getur fengið allt fyrir íþróttir
Linda segir að stefna Stúdíós Sports sé enn sú sama – að þjónusta fólk þegar kemur að þeirra hreyfingu og lífsstíl. „Við leggjum áherslu á gæði en á sama tíma erum við með verðbilið þannig að þetta sé verslun sem hentar öllum.“

„Lagersalan verður áfram til 20. júní í gamla húsnæðinu í samstarfi við verslunina Motivo. Viðtökurnar við lagersölunni hafa verið mjög góðar,“ segir Linda og bætir því við að þau komi með nýjar vörur inn í hverri viku.

„Sumarið leggst mjög vel í mig. Bærinn er fullur allar helgar, líka útaf þessum geggjaða miðbæ okkar – sem við tengjumst náttúrulega ennþá meira þegar við erum komin hingað,“ segir Linda að lokum.

Fyrri greinSkólafólk á Selfossi sæmt pólskri heiðursorðu
Næsta greinFimmti sigur Selfoss í röð