Vildu gefa gott af sér í desember

Magnús Ari Melsteð Hlinason, Breki Guðmundsson, nemendur í 10. bekk Sunnulækjarskóla afhenda Jónu S. Sigurbjartsdóttur, formanni Kvenfélags Selfoss og Erlu G. Sigurjónsdóttur, deildarstjóra hjá Rauða krossinum, gjafirnar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nemendur í 9. og 10. bekk í Sunnulækjarskóla á Selfossi færðu Sjóðnum góða jólagjafir nú í morgun.

Gjafirnar voru hluti af skólaverkefni í námsgreininni Kviku. Krakkarnir komu með gjafir að heiman sem þau settu svo í fjölnota gjafapoka sem kvenfélagskonur saumuðu.

Krakkarnir gengu svo í morgun, í frosti og myrkri, með gjafirnar í poka og á sleða frá Sunnulækjarskóla í Rauða krosshúsið – eins og sannir jólasveinar. Alls gáfu krakkarnir áttatíu gjafir í Sjóðinn góða.

Liður í því að efla samkennd
„Okkur langaði til að gera nemendur meðvitaða um hvernig aðstæður einstaklinga í samfélaginu geta verið ólíkar og að vekja hjá þeim samkennd með náunganum og að reyna að setja sig í spor annarra. Okkur langaði til þess að geta gefið eitthvað gott af okkur í desember og fá nemendur og foreldra í lið með okkur,“ segir Erna Jóhannesdóttir, kennari í Sunnulækjarskóla, í samtali við sunnlenska.is.

„Krakkarnir tóku langflestir mjög vel í þetta og komu langflestir með einhverjar gjafir að heiman sem hægt var að nýta. Við erum mjög þakklátar fyrir hversu vel var tekið í þetta verkefni og við fengum mjög jákvæð viðbrögð frá nemendum og foreldrum,“ segir Erna.

Mikil fjölgun milli ára
Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu. Samstarfið hefur staðið síðan árið 2008 og hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.

Að sögn Erlu G. Sigurjónsdóttur, deildarstjóra hjá Rauða krossinum í Árnessýslu, er mikil fjölgun á umsóknum í Sjóðinn góða síðan í fyrra. „Í ár bárust hátt í 150 umsóknir. Fólk er á öllum aldri, allt frá 18 ára upp í áttrætt,“ segir Erla og segir að það sé mikil þörf á framlögum í sjóðinn, sérstaklega á peningaframlögum.

Síðasti séns að setja pakka undir tréð
Erla segir að ekki hafi borist eins mikið af jólagjöfum til þeirra eins og í fyrra og því eru gjafirnar frá krökkunum í Sunnulækjarskóla mjög kærkomnar. „Enn er hægt er að setja jólapakka undir jólatréð á bókasafninu á Selfossi en á morgun, 18. desember, er síðasti dagurinn til þess að gera það. Einnig er hægt að koma með jólagjafir á skrifstofu Rauða krossins á Selfossi 19. desember á milli kl. 11 og 14,“ segir Erla og bætir því við að það séu helst gjafir fyrir unglinga sem Sjóðinum góða vanti.

Á bókasafninu er einnig hægt að kaupa fjölnota jólagjafapoka sem kvenfélagskonur saumuðu á litlar 200 kr. en allur ágóðinn af sölunni fer beint í Sjóðinn góða.

Þeir sem vilja styrkja Sjóðinn góða með fjárframlagi er bent á að leggja inn á eftirfarandi reikning: 325-13-301169, kt. 560269-2269. Reikningurinn er í vörslu Selfosssóknar og lýtur sama hætti og aðrir reikningar sóknarinnar.

Það var góður hópur úr 10. bekk Sunnulækjarskóla sem heimsótti Rauða krossinn í morgun. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinÞrjú HSK met á Gaflaranum
Næsta greinSigríður Ósk ráðin framkvæmdastjóri