Vildarvinir lögreglu fá 25% afslátt af hraðasektum

Lögreglan á Suðurlandi kærði ellefu ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Sá sem hraðast ók reyndist á 139 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.

Sá lauk máli sínu með greiðslu sektar á vettvangi brots, 90 þúsund krónur, en fékk líkt og aðrir vildarviðskiptamenn lögreglu 25% afslátt og útlagður kostnaður var því 67.500 krónur.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að skráningarnúmer hafi verið tekin af þremur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.

Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri könnuðu sérstaklega notkun öryggisbelta í tveimur skólabifreiðum barna í grunnskólanum þar áður en ekið var frá skólanum. Í annarri bifreiðinni voru allir í beltum en í hinni þurfti hvatningu til viðbótar við áherslu bílstjórans.

Á sama hátt hafa lögreglumenn víðar um umdæmið verið að stöðva hópbifreiðar og gera athugun á notkun öryggisbelta í þeim. Lögreglan segir að til mikils sé að vinna því það sé löngu ljóst að þrátt fyrir að bílar séu stórir getur fólk slasast alvarlega í umferðaróhappi og enn meira ef öryggisbelti eru ekki notuð.