Vilborg Arna tók fyrsta saumsporið

Það var fjölmenni samankomið í Sögusetrinu á Hvolsvelli í dag þegar Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari, tók fyrsta saumsporið í Njálurefilinn.

Það eru þær Gunnhildur E. Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtsson sem að hafa átt veg og vanda að því að koma þessu verkefni af stað og hafa staðið sig með mikilli prýði við að ýta því úr vör.

Friðrik Pálsson, hótelstjóri Hótel Rangá og stjórnarformaður Íslandsstofu, sá um veislustjórnina, Christina og Gunnhildur sögðu frá tilkomu verkefnisins og hvernig saumaskapurinn mun fara fram og Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, fluttu stutt ávörp.

Maríanna Másdóttir spilaði tvö lög á píanó og söng og Sigurður Hróarsson flutti las upp úr Njálu. Njálurefillinn verður staðsettur í Sögusetrinu og þangað getur fólk komið og saumað á fyrirfram ákveðnum tímum.

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu refilsins: www.njalurefill.is og á facebook síðunni: www.facebook.com/njalurefill .

Fyrri greinSkotið á hús á Eyrarbakka – Fjórir í haldi lögreglu
Næsta greinSelfoss tapaði í hörkuleik