Vilborg Arna saumar fyrsta sporið

Taka á fyrstu sporin, í 80 metra langan Njálurefli sem saumaður verður á Hvolsvelli, þann 2. febrúar næstkomandi. Það kemur í hlut Vilborgar Örnu Gissurardóttur, pólfara, sem er íbúi á Hvolsvelli.

Unnið verður að gerð refilsins í Sögusetrinu á Hvolsvelli og mun gerð hans taka nokkur ár.

Snýst verkefnið um að sauma Brennu-Njálssögu í hördúk og verður saumað með völdu íslensku ullargarni sem verður sérstaklega jurtalitað fyrir verkið. Refilsaumur er forn útsaumur sem stundaður var á víkingaöld.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir er hönnuður Njálurefilsins en verkefnið er í umsjón Gunnhildar Eddu Kristjánsdóttur og Christine Bentson. Verkið hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og sagði Christine meðal annars frá gerð hans í viðtali við sænska ríkisútvarpið á þriðjudag.

Sagt er frá því á vefnum njalurefill.is að tilgangur verkefnisins sé fyrst og fremst að skapa magnað verk sem hefur mikla þýðingu í ferðaþjónustu og í samfélagi heimamanna. Öll vinnan við refilinn er samvinna fyrirtækja stofnana og áhugasamra aðila á Suðurlandi.

Fyrri greinSpennandi tónleikar í Skálholti
Næsta greinGríðarlega mikilvægur sigur FSu