„Vil ekkert tala við fólk ef hundarnir eru í boði“

Ingunn ásamt hundinum Mozart sem naut þess að fá dekur hjá henni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hundasnyrtirinn Ingunn Alda Sævarsdóttir hefur rekið Hvuttaklipp við góðan orðstír í bráðum tvö ár. Svo vinsæl er hún að það er tveggja mánaða biðlisti eftir því að fá tíma hjá henni.

Ingunn hefur verið viðloðandi hundasnyrtingar frá blautu barnsbeini og segja má að hún hafi snemma fundið sína köllun í lífinu. Blaðamaður sunnlenska.is hitti Ingunni á hundasnyrtistofunni hennar á Selfossi en stofan er staðsett á Eyravegi 23, á sama stað og gæludýraverslunin Dýrakofinn er til húsa. Á meðan viðtalinu stendur er Ingunn að snyrta hund af tegundinni Dandie Dinmont Terrier og verður blaðamanni strax ljóst að hún hefur einstakt lag á hundum – er einhvers konar hundahvíslari.

Nágranninn kom henni á sporið
„Ég var og hef alltaf verið algjör hundakrakki. Ég elska alla hunda, vil bara vera ofan í þeim, vil ekkert tala við fólk ef hundarnir eru í boði,“ byrjar Ingunn á að segja.

„Þegar við áttum heima á Akureyri bjó kona við hliðina á okkur, Lilja, sem var hundasnyrtir. Mér fannst æðislegt að það væri einhver sem væri alltaf með hunda heima hjá sér, þannig að ég fór svolítið að hanga heima hjá Lilju og hún leyfði mér það, “ segir Ingunn sem var þá 10 ára.

„Ég fékk minn fyrsta hund ári síðar, Yorkshire Terrier hund sem fékk nafnið Elvis og hann fór náttúrulega í klippingu til hennar. Ég fór að hjálpa til, fékk að baða hann og svona. Þá fékk ég að kynnast þessu og komast með hendurnar í þetta en ég hef alltaf viljað gera eitthvað með höndunum.“

„Ég einhvern veginn festist í þessu og fór oft til hennar eftir skóla og var eitthvað að dúlla mér, hjálpa henni að baða og svona. Þetta endaði með því að ég keypti mér rakvél og fór að klippa hundinn minn heima. Fyrstu skiptin voru kannski ekki alveg þau bestu,“ segir Ingunn og hlær.

Örlagarík hundasýning
Ingunn segir að hún hafi alveg fallið fyrir þessari iðngrein og fékk sumarvinnu hjá Lilju eitt sumarið. „Ég fékk að vera nemi hjá henni þegar ég var unglingur og fannst það æðislegt. Svo datt þetta svolítið niður þegar ég fór í menntaskóla og allir sögðu við mig að þetta væri óraunsæ vinna, þetta væri bara hobbý. Í kjölfarið datt þetta svolítið niður hjá mér og vonin dofnaði um að ég gæti þetta. Á þessum tíma þurfti maður líka að fara erlendis til að læra fagið.“

Þegar hundurinn Elvis dó fékk Ingunn sér annan hund, Írskan setter sem fékk nafnið Ýmir. Ræktendurnir vildu að hún myndi mæta á hundasýningar með Ými og segja má að örlögin hafi þar með gripið í taumana. Sýningin hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir Ingunni og framtíð hennar.

„Ég hafði aldrei farið á sýningu á ævi minni og hélt að þetta væri eitthvað dúlli dúll og væri ekkert hundasport en við fórum. Þar kynnist ég Sóley Höllu Möller. Hún dæmdi hundinn minn á fyrstu sýningu en hún er hundasnyrtir og hundadómari.“

„Ég byrjaði svo eftir það að fara með Ými í klippingu til hennar, því að það þarf að klippa þessa tegund á ákveðinn máta. Á endanum bauð hún mér að koma og læra hjá sér því að hún er með kennararéttindi í hundasnyrtingum. Hún er ein af fáum sem er með réttindi hérna heima til þess að kenna, þannig að ég stökk á það,“ segir Ingunn sem útskrifaðist svo sem hundasnyrtir í september 2023.

Ingunn útskrifaðist sem hundasnyrtir árið 2023. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Máttur Facebook
Eftir útskrift fór Ingunn að vinna hjá Sóleyju og gerði það út árið 2023. Ingunn flutti svo á Selfoss í desember sama ár og stóð þá á ákveðnum krossgötum í lífinu.

„Ég vissi ekki alveg hvað ég ætlaði að gera. Mamma var eitthvað búin að stinga upp á því við mig að ef mig langaði að opna nýja stofu þá væri vöntun á Selfossi. Mamma og pabbi búa hérna og bróðir minn og ég ákvað að prófa þetta bara og athuga hvort ég fengi húsnæði einhvers staðar. Þetta var svolítið þannig að ef ég fengi húsnæði þá yrði ég hérna en ef ekki þá myndi ég flytja aftur norður.“

„Ég var alveg að fara að gefast upp á því að finna einhverja aðstöðu hérna á Selfossi og var farin að plana að flytja norður. Ég ákvað þá að setja á Facebook, svona síðustu tilraunina til að finna húsnæði, þar sem ég segist vera hundasnyrtir og sé að leita að aðstöðu. Þá birtist komment um að ég ætti að heyra í henni Kristínu Sigmarsdóttur. Ég hringdi í hana og þá voru þau að opna Dýrakofann og voru búin að hugsa sér að hafa aðstöðu fyrir hundasnyrti en voru ekki búin að finna neinn. Ég talaði við þau í janúar 2024 og okkur leist vel á hvort annað og negldum niður leigusamning. Þau opnuðu í byrjun febrúar 2024 og ég stuttu seinna.“

Sprakk fljótt út
Ingunn er með marga fastakúnna og er tveggja mánaða biðlisti eftir því að komast að hjá henni. „Ég var alveg að búast við því að fyrsta árið yrði rosalega rólegt og ekkert að gera og að ég þyrfti kannski að vinna rosalega mikið með. Eftir þrjá mánuði sprakk þetta bara út. Það var brjálað að gera því að það var rosa mikil vöntun.“

„Ég var búin að tala við hina hundasnyrtana hér á Selfossi þannig að þær fóru að senda á mig kúnnana sem þær gátu ekki tekið og allt í einu var brjálað að gera. Svo hættu þær á misjöfnum tíma að taka stóra hunda. Þegar maður er búinn að vinna í þessu lengi þá verður maður þreyttur. Þannig að ég fór að taka stóru hundana hjá þeim,“ segir Ingunn en flestir hundar koma á tveggja mánaða fresti til hennar.

Það er mikilvægt að hafa listrænt auga ef maður ætlar að starfa sem hundasnyrtir og það hefur Ingunn svo sannarlega. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Þolinmæði og listrænt auga
Aðspurð hvaða eiginleika góður hundasnyrtir þarf að hafa segir Ingunn að því sé auðsvarað. „Þolinmæði. Maður þarf að hafa rosalega mikla þolinmæði af því að hundur skilur ekki hvað hann er að gera upp á þessu borði. Hann skilur ekki hvað maður vill að hann sé að gera, þótt að það sé mjög fústerandi að maður sé búinn að gera þetta 120 sinnum á sama hundi, þá eru þeir samt ekkert endilega að fatta hvað maður nákvæmlega vill. Þannig að maður þarf að vera rosalega þolinmóður við þá.“

„Ef maður vill gera þetta vel þá þarf maður að vera með svolítið listrænt auga því að þetta er bara skúlptúr. Þú ert í raun að búa til listaverk á hundi, svipað eins og hársnyrtarnir gera á hausnum á okkar. Sérstaklega ef maður vill fara út í sýningarhundana, þá þarf maður að hafa rosalega gott auga fyrir formum og línum og byggingu og svoleiðis en það er hægt að læra það. Þannig að eitt, tvö og þrjú er þolinmæði.“

Tekur tíma að byggja upp traust
Ingunn hefur nokkrum sinnum verið bitin en sem betur fer aldrei illa. Hún segir að oftast nái hún að lesa hundinn áður hann nær að bíta.

„Þeir eru yfirleitt ekki að bíta til að bíta mann, þetta er meira svona láttu mig í friði. En svo eru sumir sem eru alveg hættulegir og ætla bara að éta þig. Þú stoppar ekkert hund sem ætlar að éta þig,“ segir Ingunn og bætir því við að hún fái hundana samt aftur til sín sem hafa bitið. Það taki tíma að byggja upp traust. „Ég hef aldrei upplifað að einhver hundur sé vondur. Þeir eru yfirleitt rosalega stressaðir eða hræddir en þetta er alltaf einhvað sem ég get unnið úr.“

Ingunn segir að það sé aldrei of seint að koma með hund í fyrstu hundasnyrtinguna en hún mæli þó með að fólk bóki tíma í fyrstu snyrtinguna fljótlega eftir síðustu bólusetninguna. Ingunn mælir einnig með að fólk sé duglegt að kemba eða greiða hundunum sínum, það sé númer eitt, tvö og þrjú en svo er líka gott að baða hundinn vikulega. Gott fóður skipti líka máli.

Ingunn elskar hunda – og hundarnir elska hana. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Mikilvægt að passa upp á líkamsbeitinguna
Ingunn segir að það skipti mjög miklu máli að beita bakinu rétt þegar kemur að hundasnyrtingu, bæði að standa rétt og sitja rétt.

„Ég reyni líka að gera æfingar utan vinnu til að styrkja bakið. Skilaboð til annarra hundasnyrta sem gætu verið að lesa þetta: Munið að hugsa um líkamann, munið að gera æfingar, hvort það það er í ræktinni eða fara í jóga.“

„Ég mæli rosa mikið með að fara til nuddara, hvort sem það er sjúkranudd eða heilsunudd, til að halda líkamanum góðum af því að þetta rosa mikil líkamleg áreynsla og ef maður passar sig ekki þá getur maður ekki enst í þessari vinnu. Það er oft þannig að maður sér alveg fólk sem er búið á því og það þarf að hætta því að það getur ekki unnið lengur.“

Sjálf á Ingunn tvo hunda, Ask sem er rússneskur úlfhundur og fyrrnefndan Ými sem kom henni svolítið í hundasnyrtingarnar og hundasýningarnar. „Svo á ég líka kött sem er einhver sveitaköttur. Hann heitir Gutti og er rosa skemmtilegur. Þeir eru allir góðir saman og hrekkja mig hægri vinstri. Þeir eru allir saman í því. Það er alltaf nóg að gera,“ segir Ingunn kát að lokum.

Hægt er að finna Hvuttaklipp á Instagram og á Facebook.

Fyrri greinJarðskjálftahrina við Lambafell
Næsta greinFjarnám – við erum tilbúin, hvar eruð þið?