Víkurskóli tekur þátt í Erasmus+ samstarfinu

Jón Svanur Jóhannsson verkefnastjóri skólahluta Erasmus+, Elín Einarsdóttir skólastjóri Víkurskóla og Ágúst Hjörtur Ingþórsson forstöðumaður Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi. Ljósmynd/vik.is

Víkurskóli í Vík í Mýrdal tekur enn á ný þátt í alþjóðlegu samstarfsverkefni skóla í gegnum menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+, í flokknum samstarfsverkefni skóla.

Markmið áætunarinnar er að stuðla að auknu samstarfi og samskiptum meðal skóla og skólastiga í Evrópu.

Þann 4. september skrifaði Elín Einarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla, undir samstarfssamning við landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi um þátttöku skólans í þessu nýja verkefni.

Samstarfsskólar Víkurskóla eru staðsettir í Þýskalandi, Póllandi, Kanaríeyjum, Grikklandi og Finnlandi. Nemendum í 8.-10. bekk  gefst kostur á að heimsækja eitt þessara landa og þá mun Víkurskóli taka á móti stórum hópi nemenda frá samstarfsskólunum í maí á næsta ári.

Verkefnið sem nú er lagt upp með heitir „Fit for life“. Markmið þess er að gera nemendur betur meðvitaða um hvað það er sem stuðlar að hreysti sálar og líkama. Horft verður til þátta eins og hreyfingar, næringar, sjálfsmyndar, félagsfærni og andlegrar líðan. Jafnframt munu skólarnir draga fram það sem skiptir máli í þeirra menningu sem styrkir andlega vellíðan s.s. dans, tónlist, leiklist og útivist. Skólarnir munu skipta á milli sín margskonar verkefnavinnu sem tengist inn á þessa þætti.

Fyrri greinHaldið upp á 70 ára afmæli Skógasafns
Næsta greinBjartur og fagur dagur í Hrunaréttum