Víkurskóli og Katla jarðvangur hlutu menntaverðlaun Suðurlands

Guðni Th ásamt þeim Elínu skólastjóra Víkurskóla og Jóhannesi Marteini jarðfræðingi hjá Kötlu jarðvangi. Ljósmynd/Aðsend

Menntaverðlaun Suðurlands voru afhent í sextánda sinn í gær, á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í sal Fjölbrautaskóla
Suðurlands.

Að þessu sinni voru það Víkurskóli og Katla jarðvangur sem hlutu verðlaunin fyrir samstarfsverkefni í strandlínurannsóknum í Víkurfjöru.

Verkefnið hófst árið 2021 en það er samstarfsverkefni Jóhannesar Marteins Jóhannessonar jarðfræðings hjá Kötlu jarðvangi og nemenda Víkurskóla. Framkvæmdar hafa verið mælingar á nokkrum sniðum Víkurfjöru og Jóhannes hefur komið með fræðslu til nemenda þar sem niðurstöður mælinganna hafa verið útskýrðar.

Í greinargerð sem fylgdi tilnefningunni segir að verkefnið efli þekkingu nemenda á nærumhverfi sínu og vísindalegri rannsóknaraðferð. Nemendur fá fræðslu um þá þætti sem hafa áhrif á færslu strandlínunnar s.s. veður, hafstrauma og vindáttir. Fræðslan á nærumhverfi Víkur er enn fremur mjög þýðingarmikil í ljósi lýðfræðilegra breytinga sem hafa orðið á samfélaginu í Mýrdalshreppi síðustu árin.

Brynhildur Jónsdóttir, stjórnarkona í SASS, tilkynnti úrslitin og forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin í hendur þeirra Elínar Einarsdóttur skólastjóra Víkurskóla og Jóhannesar Marteins.

Tíu tilnefningar
Alls bárust tíu tilnefningar til menntaverðlaunanna fyrir árið 2023 en auk verðlaunaverkefnisins voru tilnefnd Eydís Hrönn Tómasdóttir kennari við Grunnskólann á Hellu, Þollóween-nefndin í Þorlákshöfn, Barnakór Hvolsskóla, Leikskólinn Aldan í Rangárþingi eystra, kennarateymið í valsmiðjum á miðstigi Stekkjaskóla, Halla Sigríður Bjarnadóttir kennari við Þjórsárskóla, Matthildur E. Vilhjálmsdóttir sérkennari við leikskólann Leikholt, Stekkur til framtíðar – þróunarverkefni starfsmanna Stekkjaskóla og þær Emilía Lilja Rakelar Gilbertsdóttir, Sigríður Þorbjörnsdóttir ásamt leikskóladeild Kerhólsskóla.

Fyrri greinDavíð krýndur Suðurlandsmeistari
Næsta greinSelfoss mætir Stjörnunni í undanúrslitum