Víkurprjón stækkar við sig

Verslun Víkurprjóns í Vík í Mýrdal hefur verið stækkuð um 100 m2 til að mæta auknum fjölda viðskiptavina ferðamanna sem helst í hendur við stöðuga fjölgun ferðamanna sem sækja landið heim.

Einungis eru tæp tvö ár síðan gagngerar breytingar voru gerðar á versluninni sem þá var stækkuð um 200 m2. Nú er verslunarrými Víkurprjóns alls um 520 m2 og að hluta til á tveimur hæðum.

Við nýafstaðnar breytingar voru gluggar settir á milliveggi þannig að viðskiptavinir verslunarinnar geta nú fylgst með starfsemi prjónastofunnar, allt frá flóknum prjónavélunum yfir í samsetningu prjónavara og framleiðslueftirlit. Þessi nýjung hefur mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum verslunarinnar sem geta nú fylgst með því hvernig ullargarni og lopa er breytt í eftirsóttar tískuvörur.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir prjónavörum frá Víkurprjóni á síðustu misserum, bæði hérlendis sem erlendis. Til að bregðast við því var prjónaverksmiðja fyrirtækisins stækkuð í lok síðasta árs og prjónavélum fyrirtækisins var fjölgað úr 6 vélum í 12.

Hjá Víkurprjóni eru 15 stöðugildi allt árið en yfir sumarmánuðina er starfsmönnum verslunarinnar fjölgað um tíu talsins.

Víkurprjón er í eigu Icewear sem rekur þrjár verslanir í Reykjavík, eina á Akureyri og saumastofu í Reykjanesbæ, auk þess að reka prjónastofuna og verslunina í Vík .

Fyrri greinMýrarbraut 13 seld á 46,5 milljónir króna
Næsta greinSunnlenska.is er 5 ára í dag