Víkingur hefur áætlunarferðir í Landeyjahöfn

Farþega- og útsýnisskipið Víkingur mun hefja áætlunarsiglingar í Landeyjahöfn. Um er að ræða tvær ferðir á dag en ferðirnar eru miðaðar við áætlun Strætó í Landeyjahöfn.

Sigurmundur Gísli Einarsson, eigandi Viking Tours, sem gerir Víking út, staðfesti þetta í samtali við Eyjafréttir.

„Við erum í samstarfi með Eimskip um ferðirnar. Við höfum leyfi til að ferja 63 manneskjur í hverri ferð en auk þess eru fimm í áhöfn skipsins. Hugsunin er að dekka bilið þar til Herjólfur getur siglt í Landeyjahöfn en þá hættum við áætlunarsiglingum þangað. Mér finnst þetta vera mjög jákvætt enda verið að bæta samgöngur milli lands og Eyja og auka möguleikana, bæði fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar,“ sagði Sigurmundur.

Víkingur er 30 metra langur og 7 metra breiður, með tvær aðalvélar og tvær skrúfur en skipið kom til Eyja síðasta haust og var útbúið í Skipalyftu til siglinga á úthafi. Víkingur fer eftir sömu viðmiðum og Herjólfur, þ.e. að ölduhæð við Landeyjahöfn sé ekki meiri en 2,4 metrar.

„Við erum ekki í neinni ævintýramennsku, siglum ekki ef veðrið er ekki nógu gott og förum eftir öllum öryggisreglum. Dýpið er ekki vandamál þar sem Víkingur er mun grunnristari en Herjólfur en við höfum sama viðmið varðandi ölduhæð,“ bætti Sigurmundur við.

Eimskip mun sjá um sölu í ferðirnar og verður selt samkvæmt gjaldskrá Herjólfs og kostar ferðin fyrir fullorðna 1260 kr. á fullu verði en 756 kr. með afsláttarkorti. Fyrir börn 12 til 15 ára, ellilífeyrisþega, öryrkja og skólafólk kostar 630 kr. en 378 kr. með afsláttarkorti en frítt er fyrir börn 12 ára og yngri. Víkingur flytur ekki bíla.